Aðalfundur 2019 og stofnfundur Vinafélags

Aðalfundur Leikminjasafns Íslands og stofnfundur Vinafélags um sviðslistaarfinn

Aðalfundur Leikminjasafns Íslands var haldinn í gær 23. maí og var það síðasti aðalfundur safnsins, þar sem tillaga um að safnið verði lagt niður í núverandi mynd var samþykkt á fundinum.


Aðdragandi þessarar niðurstöðu hefur verið nokkur og má lesa um hann í skýrslum stjórnar sem aðgengilegar eru á heimasíðu safnsins www.leikminjasafn.is.


Þegar aðalfundinum hafði verið slitið var settur nýr fundur, stofnfundur Vinafélags um sviðslistaarfinn, þar sem samþykktar voru starfsreglur og kosin stjórn.


Samtök um leikminjasafn voru stofnuð 21. apríl 2001. Að stofnun samtakanna stóðu 27 félög og stofnanir af vettvangi leiklistar og annarra sviðslista. Starf samtakanna fór vel af stað og þann 9. mars 2003 var Leikminjasafn Íslands formlega stofnað, á 170. afmælisdegi Sigurðar Guðmundssonar málara. Frá upphafi var ljóst að opinbert fé þyrfti til að koma safninu á legg og gera það að þeirri stofnun sem aðstandendur þess höfðu látið sig dreyma um. Eitt og annað vannst í þeim efnum, en þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi varð draumurinn um sjálfstætt safn á vettvangi sviðslista fjarlægari og æ erfiðara varð að afla safninu rekstrartekna. Einnig komu til breytingar á lagalegu umhverfi safna 2011 með nýjum safnalögum, sem höfðu m.a. það markmið að fækka söfnum en standa þá betur að rekstri þeirra sem verulegu máli skiptu fyrir menningu og sögu þjóðarinnar.


Til að gera langa sögu stutta fóru mál á endanum svo að 8. janúar 2019 var undirritað samkomulag milli Leikminjasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðminjasafns Íslands um að þessi tvö af höfuðsöfnum þjóðarinnar taki við safnkosti og eignum Leikminjasafnsins í samræmi við sín lögbundnu hlutverk. Meðal safnkosts Leikminjasafns Íslands er vefsíðan leikminjasafn.is og  gagnagrunnur um leiksýningar á Íslandi frá upphafi skráðrar leiklistarsögu, sem Landsbókasafnið tryggir að verði þróaður áfram í samvinnu við íslenskar sviðslistastofnanir. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er ekki formlegur aðili að samkomulaginu, en það er gert með vitund og vilja ráðuneytisins, sem fjármagnar yfirfærslu safnkostsins með tilteknum hætti sem kveðið er á um í samkomulaginu. Nánar má lesa um samkomulagið og framvindu málsins í skýrslu stjórnar 2018-19 sem aðgengileg er á heimasíðu safnsins.

Tillagan sem lá fyrir aðalfundinum í gær var svohljóðandi:

Aðalfundur Leikminjasafns Íslands 2019 samþykkir að safnið verði lagt niður í núverandi mynd og safnkostur þess og hlutverk falið Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Þjóðminjasafni Íslands í samræmi við samkomulag þessara aðila dags. 8. janúar  2019. Á sama tíma verði stofnað vinafélag um sviðslistaarfinn, sem fái það hlutverk að efla, auðga og styrkja starf  höfuðsafnanna tveggja í þágu framtíðar söfnunar, varðveislu, rannsókna og miðlunar á sviðslistaarfi þjóðarinnar.

Tillagan var samþykkt samhljóða og þegar aðalfundinum var slitið var settur nýr fundur, stofnfundur Vinafélags um sviðslistaarfinn. Þar voru greidd atkvæði um tillögu að samþykktum fyrir félagið og kosin stjórn þess. Þau sem skipa stjórnina eru Börkur Hrafn Birgisson, Lárus Vilhjálmsson og Sesselja G. Magnúsdóttir, varamaður er Ásgerður Guðrún Gunnarsdóttir.