Safn Brynjólfs Jóhannessonar

Brynjólfur Jóhannesson leikari (1897-1973) var einn af burðarleikurum Leikfélags Reykjavíkur í meira en hálfa öld. Hann vann mikið í þágu félagsins og var formaður þess frá 1944 til 1948, 1953 til 1954 og 1961 til 1962. Sérgrein Brynjólfs urðu snemma karlahlutverkin sem hann þótti skila mörgum afburðavel; það má nefna Sr. Sigvalda í Manni og konu, Jón bónda í Gullna hliðinu og Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni.

Brynjólfur var ekki sérstakur safnari, en hann hélt til haga ýmsu sem hjá honum lenti. Mikið og margvíslegt efni tengt leikferli hans sjálfs og starfi fyrir Leikfélag Reykjavíkur varð eftir í fórum fjölskyldunnar og var megninu af því komið til Leikminjasafnsins fyrir milligöngu Þórs Túliníusar leikara og leikstjóra, dóttursonar Brynjólfs. Það er ekki síst ljósmyndahluti safnsins sem er áhugaverður, en í honum eru um 2.500 myndir frá fjölmörgum sýningum L.R. frá því um miðjan þriðja áratuginn framundir 1960.