Safn Gunnars Bjarnasonar

Gunnar R. Bjarnason (1932-2002) var aðalleikmyndateiknari Þjóðleikhússins á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hann starfaði þar til dauðadags og hafði síðustu árin umsjón með leikmyndagerð á vegum leikhússins.

Gunnar var mikill áhugamaður um stofnun leikminjasafns og hafði hugsað sér að taka þátt í uppbyggingu þess eftir að hann kæmist á eftirlaun haustið 2002. Af því varð þó ekki sökum skyndilegs fráfalls hans snemma hausts.

Gunnari var flestum betur ljóst að sökum lélegra geymsluskilyrða væru vinnuteikningar og myndir sviðs- og búningateiknara í mikilli glötunarhættu, að ekki sé minnst á sviðslíkönin. Hann neytti því aðstöðu sinnar í Þjóðleikhúsinu til að halda ýmsu til haga, ekki aðeins eigin verkum heldur einnig annarra. Eftir lát Gunnars afhentu börn hans safn hans allt Leikminjasafni Íslands.