Safn Haralds Björnssonar

Haraldur Björnsson (1892-1967) lauk ásamt Önnu Borg (1903-1963) fyrstur Íslendinga leiklistarprófi frá skóla Kgl. leikhússins í Kaupmannahöfn árið 1927. Eftir það starfaði hann sem leikari og leikstjóri í áratugi á Íslandi. Hann var fastráðinn til Þjóðleikhússins árið 1950, en síðustu árin, sem hann lifði, starfaði hann mest með Leikfélagi Reykjavíkur.

Haraldur Björnsson var dugmikill hugsjónamaður sem þorði að leggja allt í sölurnar fyrir list sína.

Hann gerði sér fulla grein fyrir sögulegri stöðu sinni, vissi að hann yrði síðar talinn til helstu brautryðjenda íslensks atvinnuleikhúss. Hann gerði sér því far um að halda til haga margvíslegum gögnum um feril sinn, hélt vandað úrklippusafn, geymdi handrit, myndir og önnur gögn sem hann vissi að myndu varpa ljósi á hann. Von hans var sú að safnið yrði síðar uppistaða í íslensku leikminjasafni og má segja að sú von hafi með nokkrum hætti rætst við stofnun Leikminjasafnsins.

Eftir dauða Haralds var safn hans í vörslu sonar hans, Jóns Haraldssonar, arkitekts, og var það afhent formlega af syni hans, Stefáni Jónssyni, leikara og leikstjóra.