Safn Klemenzar Jónssonar

Klemenz Jónsson (1920-2002) var einn þeirra ungu leikara sem að loknu námi hjá Lárusi Pálssyni á fimmta áratugnum hleypti heimdraganum og lauk leiklistarnámi frá Royal Academy of Dramatic Art, RADA, í London. Klemenz varð snemma leikari og leikstjóri við Þjóðleikhúsið, auk þess sem hann annaðist m.a. bókasafn hússins í mörg ár. Hann var leiklistarstjóri Útvarps frá 1975 til 1981. Klemenz var mikilvirkur leikstjóri, en verður lengst minnst fyrir uppfærslur sínar á barnaleikritum, einkum leikritum Thorbjörns Egner. Sviðsetningar hans á leikritum eins og Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi uppskáru lof gagnrýnenda og miklar vinsældir áhorfenda, ungra jafnt sem aldinna.

Klemenz hirti óvenju vel um leikstjórnarhandrit sín, batt þau inn hvert og eitt og tölusetti. Þau eru meginuppistaðan í safni því sem ekkja hans, Guðrún Guðmundsdóttir, afhenti Leikminjasafninu eftir lát hans. Þá eru í safninu ýmis önnur handrit, s.s. að samsettum leiknum dagskrám um ýmis söguleg efni sem Klemenz vann fyrir útvarp. Nokkuð er um myndefni, einkum kveðjur og kort frá Thorbjörn Egner, sumt af því innrammað.