Safn Soffíu Guðlaugsdóttur

Soffía Guðlaugsdóttir (1898-1948) var ein fremsta leikkona sinnar kynslóðar. Hún var mikill hugsjónamaður fyrir hönd leiklistarinnar og hafði sérstakan áhuga á leiklistarkennslu sem hún stundaði töluvert. Þá fékkst hún einnig allmikið við leikstjórn, m.a. í útvarpi.

Gögn Soffíu voru varðveitt af eiginmanni hennar, Hjörleifi Hjörleifssyni, sem er látinn. Það var sonur Soffíu, Guðlaugur Hjörleifsson, sem kom þeim í hendur Leikminjasafnsins. Efni safnsins er mest ýmis einkaskjöl, handrit, leikskrár og ljósmyndir, en með því fylgdi einnig frummynd (stytta) af Skálholtssveininum, verðlaunagrip sem minningarsjóður Soffíu veitti nokkrum leikurum á árunum 1958-1965.