Um leikritagerð Guðmundar Steinssonar

Ávarp flutt við afhendingu handrita Guðmundar í Landsbókasafni 12. sept. 2003

Ferill Guðmundar Steinssonar í íslensku leikhúsi var um flest harla sérkennilegur. Framan af var verkum hans sýndur lítill sem enginn áhugi, hvorki af hálfu leikhúsa né gagnrýnenda, og þó að Þjóðleikhúsið tæki eitt þeirra, Forsetaefnið, til sýningar árið 1964, breytti það tæpast miklu. Guðmundur var kominn undir fimmtugt þegar nokkuð tók að rofa til og hann að sjá einhvern árangur af þessu bjástri. Þá sýndi Þjóðleikhúsið Lúkas í sýningu sem var það eftirminnileg að hún lifir enn í minningunni eftir bráðum þrjátíu ár. Í kjölfarið sigldi svo Sólarferð, háðleikur um íslenska túrista á sólarströnd sem varð mjög vinsæll, og þremur árum síðar, Stundarfriður, hinn stóri sigur. Þá var orðið erfitt að halda því fram að maðurinn hefði betur varið tíma sínum í eitthvað annað.

Stundarfriður var á næstu árum sýndur víða um lönd, oft við afbragðs undirtektir, og enn berast fréttir af nýjum uppfærslum. Þjóðleikhúsið sjálft fór tvívegis með sína sýningu í leikför til útlanda, en fyrst mun leikurinn hafa verið frumsýndur erlendis í Braunschweig í Þýskalandi snemma árs 1983. Á allra næstu misserum og árum fylgdu sýningar í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Póllandi. Voru móttökurnar ekki hvað sístar í Varsjá þar sem leikurinn gekk í um hálft ár, auk þess sem Pólverjar settu hann upp í sjónvarpi. Allt var þetta góða gengi leiklistarsögulegur áfangi, staðfesting þess að íslenskt leikhús þyrfti ekki alltaf að vera þiggjandi í skiptum sínum við umheiminn, eins og fram að því hafði verið algengast og er auðvitað enn.

En meiru skipti þó með hvaða hætti Stundarfriður talaði til íslenskra áhorfenda. Það er ekki alltaf auðvelt að skýra hvað veldur því að leikrit slá í gegn. Eftir á að hyggja virðist augljóst að Stundarfriður hafi tjáð eitthvað sem lá fyrir í loftinu og menn voru að byrja að átta sig á, þó að kannski væri eftir að binda það í orð. Þó að leikurinn beitti meðulum kómedíunnar og það hafi sjálfsagt átt sinn þátt í vinsældum hans, var það vitaskuld alls ekki eina skýringin. Stundarfriður var samfélagsspegill sem var brugðið upp á hárréttum tíma. Okkur brá í brún þegar við horfðum á þessa sundruðu fjölskyldu, sem að nafninu til bjó saman og hélt saman, æða um íbúð sína í gegndarlausu stressi, gleypandi pillur af öllu tagi, gónandi á sjónvarp, masandi linnulaust í símann í stað þess að tala saman og sinna hvert öðru. Það er athyglisvert að í hverju einasta atriði leiksins eru menn eitthvað að snæða, en setjast aldrei saman að borði, heldur henda fæðunni í sig á hlaupum. Það er ekki fyrr en á jólunum að fjölskyldan gerir tilraun til sameiginlegs borðhalds og þá endar það með ósköpum.

Vorum við virkilega að verða svona, spurðum við, og gátum víst ekki svarað því alveg neitandi. Íslenska þjóðin hafði þá búið við batnandi efnahag frá stríðslokum, byggt upp fjölþætt nútímasamfélag af miklu kappi; nú var eins og gæfist ofurlítið stundarhlé til að staldra við, horfa inn á við og spyrja hvort ekki hefði eitthvað glatast sem að lokum væri meira virði en öll þægindin og fínheitin. Stundarfriður var viðvörun, borin fram af þeirri hógværð og festu sem var svo ríkt einkenni á höfundinum. Hann predikaði ekki, var löngu orðinn nógu þroskaður og slyngur í meðferð listræns forms til að geta sagt það sem honum bjó í brjósti án trumbusláttar eða yfirlætis. Það voru engir vondir kapítalistar í þessu leikriti, líkt og ýmsum öðrum tískuverkum áranna, engar patent-lausnir. Einmitt þess vegna var ekki annað hægt en leggja við hlustir og það gerði þjóðarsálin sannarlega.

Hitt vissu færri þá, og hefðu kannski ekki heldur haft á því mikinn áhuga, að Stundarfriður var ekki fyrsta glíma höfundar við þennan vanda. Við getum séð það nú, þegar leikrit hans hafa loks öll verið dregin fram í dagsljósið, að verkið var afrakstur, og sjálfsagt að vissu leyti hátindur, margra ára leitar og þróunar. Guðmundur hafði þá sem leikskáld prófað gerólík leikform, hann hafði byrjað mjög hefðbundið á sjötta áratugnum, flutt sig síðan yfir í stílfærðar satírur og dæmisögur í anda Brechts, og þá fyrst, einhvern tímann í kringum 1970, tekið að semja fjölskylduleiki af sama tagi og Stundarfriður. Guðmundur var þá orðinn mjög módernískur höfundur sem hafnaði ekki aðeins hinu gamla realistíska formi heldur einnig hugsuninni um einhverja algilda listræna meginreglu, allsherjarmunstur sem höfundurinn gæti bróderað mismunandi dúka eftir. Sú regla, sem hvert einstakt verk hlaut að byggjast á, gat því í raun og veru aðeins verið einnota; það varð alltaf að byrja upp á nýtt, finna hverju verki eigið snið og grundvöll. Eitt var ljóst: skáldið var ekki að skrifa leikrit til að halda uppi þjóðlegri sagnaskemmtan eða lýsa sérkennilegum karakterum eins og löngum hefur verið líf og yndi íslenskra skálda, sagna jafnt sem leikrita. Guðmundur hafði engan áhuga á slíku, ekki af því að hann kynni ekki að segja sögu eða lýsa fólki, elstu verk hans tvö, Fjölnir og Tvíleikur, taka af allan vafa um það. Hann var nefnilega ekki framúrstefnulistamaður af því tagi sem hafnar hefðinni, arfleifðinni, gamalgróinni tækni kynslóðanna, án þess að taka fyrst sjálfur próf í henni, sýna og sanna, bæði fyrir sjálfum sér og öðrum, að uppreisn hans byggðist ekki á einhverri oftrú á eigin frumleik eða leti þess sem nennir ekki að ganga í skóla. Af þessum sökum stóð módernismi Guðmundar mjög traustum fótum í fyllingu tímans og þó að hann fetaði sig út á brautina undir handarjaðri Brechts fann hann brátt sína eigin leið. Eftir henni náði hann að lokum, fyrir atbeina leikhússins, að hjarta áhorfenda.

-------- * ----------

Það er við hæfi á þessari stundu, þegar við fögnum því í senn að öll leikrit Guðmundar Steinssonar eru komin út á prenti og handrit hans að verða þjóðareign, að rifja stuttlega upp helstu æviatriði hans. Hann var fæddur á Eyrarbakka 19. apríl 1925. Foreldrar hans hétu Þórunn Guðmundsdóttir og Gísli Jónsson. Þórunn var fædd og uppalin þar á staðnum, faðir hennar, Guðmundur Steinsson, var sonur Steins Guðmundssonar, sem var landskunnur skipasmiður á nítjándu öld. Steinn var mikill hugvitsmaður í sinni grein, þróaði sérstakt skipalag sem gerði skip hans bæði hraðskreið og stöðug í straumföllum suðurstrandarinnar og má sjá dæmi um það í sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Gísli, faðir Guðmundar, var Snæfellingur að ætt, en þau Þórunn gengu hvorki í hjúskap né áttu saman fleiri börn. Nokkrum árum síðar gekk Þórunn hins vegar að eiga bróður Gísla, Kristján C. Jónsson, og bjuggu þau saman alla tíð. Þórunn og Kristján eignuðust einn son, Kristjón, sem dó í frumbernsku, en tóku síðar fósturdóttur, Jóhönnu Ingimundardóttur, og ólust þau Guðmundur upp saman sem systkini.

Fólk Guðmundar var allt verkafólk, en móðir hans hafði mikinn metnað fyrir hönd þessa einkasonar síns sem lifði, og studdi hann til mennta. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og hélt síðan til Bandaríkjanna þar sem hann hóf nám í líffræði við Boston-háskóla. Eftir eitt ár hætti hann þó því námi, söðlaði um og fór til Parísar þar sem hann las bókmenntir við Sorbonne næstu ár. Hann ferðaðist mikið á þessum tíma, m.a. til Austur-Evrópu, en hann mun snemma hafa hneigst til þeirrar pólitísku róttækni sem setur svip á mörg elstu verk hans. Hann nýtti þennan tíma og þau tækifæri, sem honum fylgdu, auðsjáanlega mjög vel til að víkka sjónheildarhringinn, afla sér menntunar og reynslu sem átti eftir að nýtast honum í lífsstarfinu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að sjötti og sjöundi áratugur síðustu aldar voru afar frjótt skeið í evrópskri leikritun. Absúrdistarnir svonefndu voru að koma fram með nýstárlega og kraftmikla leikhússýn, þó að sumum þætti nóg um bölhyggju þeirra, að ekki sé sagt mannfyrirlitningu og vildu fremur trúa því að hægt væri að breyta heiminum, eins og meistari Brecht boðaði. Brecht var þá sestur að í dýrðinni fyrir austan, nánast opinbert skáld með eigið leikhús þar sem hann gat framkvæmt sína frægu kenningu um epíska leikhúsið sem átti víst að leysa hið gamla, dramatíska af hólmi, svona svipað og sósíalisminn myndi taka við af kapítalismanum. Í Bretlandi var að koma fram ný gustmikil kynslóð reiðra ungra leikskálda sem fóru mikinn um sinn, þó að Pinter verði líkast til sá eini úr þeim hópi sem nær að lifa eitthvað. Allt hlaut þetta að orka á hug ungs höfundar í leit að tjáningarformi. Sjálfur dró Guðmundur enga dul á það að Brecht hefði haft mikil áhrif á sig; hann var eini höfundurinn sem Guðmundur nefndi með nafni í sjónvarpsviðtali sem ég átti við hann skömmu áður en hann dó árið 1996 og varð raunar upphafið að samvinnu okkar við útgáfuna. Án þess ég vilji á neinn hátt gera lítið úr hinum hugmyndalega þætti þeirra áhrifa, hygg ég að það hafi ekki síður verið formbyltingarstefna Brechts hins unga sem Guðmundur lærði mest af. Mér virðist sem sé að í þeim satírísku dæmisöguleikjum, sem hann skrifaði með hliðsjón af ýmsum formúlum Brechts á sjöunda áratugnum, megi allvíða greina svartsýni og efahyggju af því tagi sem a.m.k. sumir hinna eldri sósíalista töldu merki um borgaralegan vesaldóm. En Guðmundur var auðvitað barn annarra tíma, kalda stríðsins og kjarnorkuhættunnar, og skynjaði að heimurinn var nokkru flóknari en kynslóð kreppunnar vildi vera láta.

Skáldbrautin var Guðmundi torsótt, framan af og kannski að einhverju leyti alla tíð. Í viðtali, sem birtist við hann í Félagsbréfi Almenna bókafélagsins árið 1959, kveðst hann ekki hafa getað tjáð sig í heilan áratug; nú, þegar að því sé komið, liggi sér margt á hjarta. Þegar hér var komið sögu hafði hann aðeins sent frá sér tvær skáldsögur, Síld, sem kom út árið 1954 og Maríumyndina, 1958. Vakti fyrri sagan litla eftirtekt, þó að yrkisefnið, íslenskt síldarævintýri eða síldaræði, væri allóvenjulegt, en hin síðari, sem er ástarsaga frá Kanaríeyjum, fékk aftur á móti góða dóma. Guðmundur hafði í upphafi hugsað sér að leggja fyrir sig skáldsagnagerð; það sem hann hafði séð og lifað í íslensku leikhúsi á uppvaxtarárum sínum hafði ekki snortið hann sem raunveruleg list, eins og hann orðaði það í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali. Það var ekki fyrr en hann kynntist breskri og franskri leiklist að leiksviðið tók að heilla hann, og má í fyrrnefndu viðtali glöggt sjá að hann veit nú hvert skal haldið. Þó að málsmetandi ritdómurum þætti Maríumyndin vekja góðar vonir, var Guðmundur sjálfur nú orðinn afhuga skáldsögunni og lagði hana endanlega á hilluna. Það hentaði honum ekki að skipta sér á milli ólíkra skáldskapargreina, hann fann ekki hvíld eða tilbreytingu í því að semja sögur eða yrkja ljóð, líkt og sumir skáldbræður hans. Upp frá þessu átti leikritið og leikhúsið hug hans allan.

Það var ekki auðvelt að vera ungur leikritahöfundur á Íslandi um og upp úr miðri síðustu öld. Eftir að atvinnuleikhús var loks orðið til í landinu með stofnun Þjóðleikhúss vonuðu margir að nýtt blómaskeið væri framundan í þessari bókmenntagrein sem og varð að vissu leyti raunin þegar fram liðu stundir. Stjórn Þjóðleikhússins taldi hins vegar lengi framan af oftast tryggast að veðja á viðurkennda höfunda, eins þótt verkin væru kannski flest andvana fædd eða, eins og Ásgeir Hjartarson orðaði það í grein árið 1960, "óskapnaður að formi og óljós í hugsun, andvana lík í miklum og skrautlegum umbúðum". Leikhúsið áleit sér skylt að koma til móts við háværar kröfur um íslenska leikritun, en var seinheppið í verkefnavali og gaf með því úrtölumönnum óbeint undir fótinn; það var auðvelt, þegar svo stóð á, að segja að allt væri þetta nú meira eða minna vonlaust og misheppnað. Hin unga kynslóð leiklistarfólks lét þó ekki íhaldssemi og vandræðagang hinna eldri stöðva sig og stofnaði bara sitt eigið leikhús, Grímu, þar sem Guðmundur og kona hans, Kristbjörg Kjeld, voru ásamt öðrum í fararbroddi. Hjá Grímu voru tvö leikrit hans, Fósturmold og Sæluríkið, frumsýnd og ekki að efa að það var honum ómetanlegt, þrátt fyrir alla annmarka sem hlutu að vera á sýningunum. Ekki má heldur vanmeta þau tengsl sem hann hafði við leikhúsið í gegnum Kristbjörgu, sem var þá þegar komin í röð fremstu leikara af yngri kynslóð og tók alltaf mjög lifandi þátt í viðleitni hans, leikstýrði reyndar sumum verka hans hjá Grímu og síðar Alþýðuleikhúsinu.

Þegar nú er litið á ævistarf Guðmundar, sem fyllir þrjú þykk bindi, virðist ótrúlegt að það sé samið af manni sem lengi framan hafði ritstörfin að mestu í hjáverkum. Sú er þó vitaskuld raunin. Þeir tímar voru ekki enn runnir upp í landinu að álitlegur hópur höfunda gæti treyst á reglubundin starfslaun úr opinberum sjóði, og jafnvel þótt svo hefði verið, er viðbúið að höfundur, sem hin virðulegu leikhús töldu ekki þess virði að sýna neitt eftir, hefði þar orðið slyppifengur. Starfið hjá Grímu var að sjálfsögðu að heita mátti ólaunað, óeigingjarnt hugsjónastarf sem skilaði ekki árangri fyrr en löngu síðar. Guðmundur gat því ekki lifað af leikskáldskap, fremur en skáldbræður hans, Agnar Þórðarson, Jökull Jakobsson, Oddur Björnsson eða Jónas Árnason, svo aðeins nefndir séu þeir helstu af hans kynslóð. Eftir að hann settist aftur að í Reykjavík um miðjan sjötta áratuginn kenndi hann tungumál í nokkur ár við Iðnskólann, en aðalstarfi hans þá og raunar löngum síðar var fararstjórn á vegum íslenskra ferðaskrifstofa. Hinn sveigjanlegi vinnutími, sem henni fylgdi, hentaði honum vel, auk þess sem hann lét að sjálfsögðu ekki ónotuð góð tækifæri til þjóðfræðilegra rannsókna á íslenskri hegðun í frelsi sólarlandanna. Síðari árin mátti heita að hann helgaði sig ritstörfunum einvörðungu. Hann hafði komið sér upp góðri vinnuaðstöðu á efra loftinu í raðhúsi þeirrar Kristbjargar í Fossvoginum þar sem hann gat breitt úr sér við skriftirnar á þann sérkennilega hátt sem hann hafði tamið sér. Hann var mikill reglumaður í hvívetna og lét það ekki á sig fá þó að leikhússtjórar og leikstjórar hlypu ekki upp til handa og fóta við hvert nýtt verk sem hann lauk. Hann skrifaði mörg uppköst að hverju verki, lagði þau síðar til hliðar og bjó um þau af snyrtimennsku. Hef ég ekki nákvæma tölu á þessum handritum öllum, sem nú eru komin hingað í Þjóðarbókhlöðuna, og eru að sjálfsögðu ómetanleg heimild um vinnubrögð höfundar, sköpunarferlið að baki verka hans.

---------------- * -------------------------

Guðmundur Steinsson lifði tvenna tíma sem höfundur og þó að hann væri alltaf sjálfum sér líkur, breyttist hann vitaskuld eftir því sem tímarnir tóku stakkaskiptum. Það er hægt að lesa siðspilltu og rugluðu samfélagi pistilinn af sviðinu, en sú spurning hlýtur þó að leita á hver sé tilgangurinn ef ekki mæta aðrir í leikhúsið en þeir sem þegar eru sáluhólpnir. Þau merkilegu hvörf, sem verða á leikritagerð Guðmundar í kringum 1970 og ég vék að áðan, felast ekki aðeins í formlegri endurnýjun, heldur í nýrri og víðsýnni afstöðu, viðleitni til að horfa inn á við með öðrum hætti en fyrr. Ekki það að skáldið væri eitthvað að mildast í afstöðu sinni til þeirra sem sátu við háborð þjóðfélagsins á kostnað annarra; um það talar verk eins og Lúkas sínu máli. En Lúkas sýnir einnig að höfundur veit nú að valdhafinn sjálfur, kúgarinn og afætan, er í rauninni jafn ófrjáls, jafn mikill fangi stöðu sinnar og sá sem hann treður fótum og níðist á. Sjónarhornið hefur flutst til, skáldið hætt að draga upp svarthvítar myndir en tekið að ganga nær sjálfum sér. Þú skalt hugsa meira um bjálkann í auga sjálfs þín en flísina í auga bróður þíns, var eitt sinn sagt, og þó að sjálfsögðu sé alltaf rétt að hata óréttlætið, getur hatrið snúist gegn hataranum og étið hann upp, eins og Brecht orti reyndar um í frægu ljóði. Öllum er okkur hætt við að vera sjálfhverf um of, til að miða allt við okkar eigin þarfir, óskir og langanir, og það er sú hneigð sem er hinn eiginlega óvinur, það samfélag sem kyndir undir henni. Þetta hygg ég að skýri hvers vegna leikritun Guðmundar gerðist æ innhverfari eftir því sem á leið, án þess hún glataði þar fyrir almennri siðferðislegri skírskotun. Það var ýmislegt sem kom mér á óvart þegar ég fékk loks tækifæri til að lesa verk hans í heild, en eitt af því sem mig furðaði mest á var hversu langt hann að lokum gekk í því að leysa upp mörk tíma og rúms til að endurspegla sálrænan veruleika. Í verkum eins og Spegilmyndinni og Hjartslætti brýtur hann upp leikformið með líkum hætti og Strindberg hafði gert í síðari verkum sínum; í Spegilmyndinni kastar hann jafnvel öllum leifum sögu og persónusköpunar fyrir róða, svo að ekki er annað eftir en dramatískt flæði sem þó býr yfir merkingu, innri formfestu, hrynjandi, jafnvægi og stigmögnun átakanna sem fara að öllu leyti fram í hug aðalpersónunnar, sem er leikskáld eins og höfundur sjálfur. Í Hjartslætti kynnumst við hins vegar kvenkyns fæðingarlækni sem er svo undarlega farið að hún má ekki til þess hugsa að geta af sér nýtt líf. Maður hennar er ekki sáttur við þetta og þegar hún verður loks ólétt, lætur hún eyða þunganum. Hér er á ferð gamalkunnugt minni í skáldskap Guðmundar sem hann hafði auðsæilega mjög ákveðna afstöðu til: það, að deyða ófætt líf er í verkum hans alltaf vottur um kærleikslaust og grimmúðugt hugarfar. Í lokaatriðinu stendur konan fyrir framan spegil, hún er að fara að verja doktorsritgerð sína, er skilin við bónda sinn, sjálfstæð nútímakona sem lætur engan segja sér fyrir verkum. Þá gerist eitthvað undarlegt: í fleti spegilsins birtist mynd fósturs sem kemur og fer, dregur sig í hlé, hverfur, en snýr alltaf aftur, stærra og aðsópsmeira, eins og útburðurinn í þjóðsögunni. Þetta draugalega atriði kallast skýrt á við upphafsatriði leiksins þar sem við verðum vitni að fæðingu, nema hvað hér hefur dauðinn sigrað, en ekki lífið.

Guðmundi gat á stundum virst vera nokkuð dimmt fyrir augum og trú hans veik á mannskepnuna og möguleika hennar til að sigrast á því illa. En hann vildi líka trúa á lífið, ekki ánetjast bölmóði og uppgjafarkennd, þó að slíkar hugsanir leituðu sterkt á. Að þessu leyti grunar mig að nokkur togstreita hafi ætíð verið í honum, togstreita sem hann lét þó ekki brjóta sig niður heldur vann úr á skapandi hátt. Það er nú einu sinni staðreynd að dramatísk list kviknar af átökum andstæðna og skáld, sem heyr ekki neina baráttu, þekkir hvorki efa né örvæntingu, getur aldrei skrifað góða og lífvænlega dramatík.

Það er að sjálfsögðu á leiksviðinu sem endanleg örlög allra leikrita og leikskálda ráðast. Guðmundur Steinsson var einn þeirra fágætu listamanna sem ná að víkka út sviðið, rífa niður gamla múra, færa út landamærin. Um lífslíkur verka hans til lengri tíma er enn of snemmt að spá, en um tvennt verður ekki deilt: hann færði íslenskt menningarsamfélag nær evrópskum samtíma og - þegar best tókst til - Íslendinga sjálfa nær sjálfum sér. Það væri auðug þjóð sem hefði ráð á að láta verk slíks höfundar falla í gleymsku.

Jón Viðar Jónsson forstöðumaður Leikminjasafns Íslands