Verk Jóns E. Guðmundssonar í Safnasafnið

Brúðusafni Jóns E. Guðmundssonar hefur verið komið fyrir á Tjarnarvöllum í nýju og fullkomnu geymsluhúsnæði Þjóðminjasafns Íslands. Þegar þeir flutningar  voru afstaðnir tók stjórn til við að skoða hvort möguleiki væri á að koma þeim gripum Jóns E. Guðmundssonar, tréskúlptúrum, málverkum, dúkristum og teikningum, sem ekki eru viðkomandi leiklistartengdu starfi Jóns, fyrir á viðurkenndu safni með söfnunarstefnu sem næði til slíkra verka. Haft var samband við Safnasafnið í Eyjafirði, sem sérhæfir sig í að safna, rannsaka og miðla verkum alþýðulistamanna og einfara í myndlist. Níels Hafstein annar stofnenda og forstöðumaður Safnasafnsins sýndi því strax mikinn áhuga að fá þessa gripi til varðveislu og í byrjun árs 2018 fór fram vinna við að safna saman og pakka til flutnings 64 verkum úr fórum Jóns. Allir gripirnir voru skráðir og myndaðir, svo til er greinargott yfirlit yfir allt sem afhent var Safnasafninu til varanlegrar varðveislu. Á vordögum áformar stjórnarformaður ferð á Safnasafnið til að undirrita formlegan gjörning þessu til staðfestingar.
Það sem eftir stendur í eigu Leikminjasafns úr dánarbúi Jóns E. Guðmundssonar eru skólaminjar ýmisskonar frá kennsluárum hans í Austurbæjarskóla. Stjórn hefur áform um að kanna hvort áhugi væri hjá Borgarsögusafni, skólaminjasafni Austurbæjarskóla eða hjá öðrum að varðveita þessa muni, sem eru t.d. hefilbekkur Jóns og trönur.