Aðalfundur
Þjóðarbókhlaðan 23. maí 2019, kl. 15:00

Viðstaddir: Kolbrún Halldórsdóttir, Marín Árnadóttir, Þórhallur Sigurðsson, Sigríður Jónsdóttir, Benóný Ægisson, Ólafur Engilbertsson, Árni Kristjánsson, Ásgerður Gunnarsdóttir, Sesselía Guðmunda Magnúsdóttir, Börkur Hrafn Birgisson, Lárus Vilhjálmsson, Orri Huginn Ágústsson, Hörður Sigurðarson, Jóhann G. Jóhannsson og Móeiður Helgadóttir.

Kolbrún setur fundinn kl. 15:05 og fundarmenn samþykkja að hún stýri fundinum.

Gengið til dagskrár eftir að fundargestir hafa fengið sér kaffi.

7. mars 2019 sent var sent út fundarboð með tölvupósti til fulltrúaráðs Leikminjasafnsins þar sem getið var um dagskrá fundarins.

KH biður viðstadda um að samþykkja lögmæti fundarins, sem er samþykkt samhljóma.

1. Fundargerð síðasta aðalfundar

Fundargerð 2018, sem týndist en fannst aftur hjá fyrrum ritara Leikminjasafns Íslands (ÁÞ), er lesin upp af KH.

Fundargerð borin upp til samþykktar og er samþykkt samhljóða. Fundargerðin verður gerð aðgengileg á vefsíðu Leikminjasafnsins að loknum þessum fundi.

2. Skýrsla stjórnar

Næsti liður, skýrsla stjórnar frá Aðalfundi 2019 til Aðalfundar 2018. Hentaði betur að fara þannig yfir málin í stað þess að byrja frá áramótum.

KH les skýrslu stjórnar Leikminjasafns Íslands starfsárið 2018 fram að aðalfundi 2019.

Skönnuð eintök af samkomulaginu frá 8. janúar 2019 dreift til fundargesta. Má finna sem viðhengi með þessari fundargerð í fundargerðarbók Leikminjasafns Íslands.

Skráning einkasafna úr safnkosti Leikminjasafns Íslands hélt áfram 2019 í Landsbókasafni Íslands og Marín Árnadóttur, sem annast hefur skráninguna síðustu mánuði, eru bornar bestu þakkir fyrir fagleg og vel unnin störf.

Sérlegar þakkir fær einnig Eyjólfur Kristjánsson fyrir einstaka vinnu við gagnagrunn Leikminjasafnsins sem gengur nú til Landsbókasafns Íslands og verður undir þeirra umsjá í framtíðinni. Eyjólfur mun gæta þess að skila gagnagrunninum frá sér af vandvirkni og upplýsa starfsfólk tölvukerfa Landsbókasafns um öll smáatriði sem varða gagnagrunninn bæði tæknilega og hugmyndirnar að baki grunninum.

ÞS lýsir yfir mikilli ánægju með störf stjórnar við yfirfærslu safnkostsins til Landsbókasafns og Þjóðminjasafns. ÓE segir það hreinlega kraftaverk að þetta hafi gengið í gegn. KH hefur verið sem klettur í þessu máli og fær lófatak fundargesta.

3. Afgreiðsla reikninga

KH les reikninga og útskýrir einstaka atriði s.s. að stærsti kostnaður Leikminjasafns Íslands var greiðsla til Landsbókasafns Íslands vegna launa starfsmanns við skráningu, en Leikminjasafn Íslands hefur á undanförnum árum greitt rúmar 7 milljónir til Lbs fyrir skráningu safnkosts og frágang einkaskjalasafna.

Spurningar varðandi reikninga voru engar.

Reikningar bornir undir viðstadda og eru þeir samþykktir samhljóma.

4. Tillaga um að Leikminjasafn Íslands verði lagt niður og hlutverk þess falið Landsbókasafni Íslands og Þjóðminjasafni Íslands, ásamt tillögu um stofnun vinafélags, sem verði bakland höfuðsafnanna við varðveislu, rannsóknir og miðlun sviðslistaarfs þjóðarinnar

KH fer yfir samþykkt fulltrúaráðsfundar 23. maí 2019 en þar var eftirfarandi tillaga samþykkt:

Fulltrúaráð Leikminjasafns Íslands felur stjórn Leikminjasafns Íslands að vinna að tillögu fyrir næsta aðalfund safnsins, sem haldin verður í maí 2019, um að leggja niður Leikminjasafn Íslands í núverandi mynd. Þá muni stjórn, með samþykki fulltrúarráðsins, vinna að stofnun hollvinasamtaka Leikminjasafns Íslands og halda stofnfund þeirra samtaka í beinu framhaldi af aðalfundinum.

Í ljósi þessarar samþykktar leggur stjórn safnsins nú fram eftirfarandi tillögu sem kynnt hefur verið í tölvupósti:

Aðalfundur Leikminjasafns Íslands 2019 samþykkir að safnið verði lagt niður í núverandi mynd og safnkostur þess og hlutverk falið Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Þjóðminjasafni Íslands í samræmi við samkomulag þessara aðila dags. 8. janúar  2019. Á sama tíma verði stofnað vinafélag um sviðslistaarfinn, sem fái það hlutverk að efla, auðga og styrkja starf  höfuðsafnanna tveggja í þágu framtíðar söfnunar, varðveislu, rannsókna og miðlunar á sviðslistaarfi þjóðarinnar.

KH minnir á að til að tillagan nái fram að ganga þurfi 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna á aðalfundi, sem boðaður hefur verið í þessu skyni, að samþykkja tillöguna.

Tillagan um að Leikminjasafn Íslands sé lagt niður borin til undir atkvæði fundarmanna og er hún samþykkt samhljóma af öllum viðstöddum.

Þar með er búið að samþykkja að leggja Leikminjasafn Íslands niður og stofna á grunni þess vinafélag um sviðslistaarfinn. Áður en þessum fundi verður slitið og vinafélagið formlega stofnað er lagt til að fundarmönnum verði gerð grein fyrir gjöfum sem borist hafa safninu.

ÓE sýnir glærur sem sýna myndir af gjöfum og fer stuttlega yfir sögu þeirra:

Lárus Ingólfsson
Fjölskylda Lárusar Ingólfssonar hefur afhent Leikminjasafni Íslands fjölbreytt gögn úr hans fórum, þau  hafa verið varðveitt í tveimur töskum á Bergstaðastræti 68 þar sem Lárus bjó og hefur Vigdís Sigurðardóttir systurdóttir Lárusar varðveitt þau síðustu ár. Meðal þess sem þar má finna eru tvö ljósmyndaalbúm frá námsárum Lárusar, um 200 ljósmyndir, auk ljósmynda í lausu sem eru um 100 talsins, flestar frá leikhúsuppfærslum í Þjóðleikhúsinu. Leikmyndateikningar, búningateikningar ásamt teikningum af öðru tagi eru líka í töskunum ásamt handritum og revíutextum eftir Lárus, en hann var  einn vinsælasti revíuleikari og gamanvísnasöngvari þjóðarinnar um árabil og helsti leikmynda- og búningateiknari sinnar tíðar. Lárus var fyrsti Íslendingurinn sem átti allan sinn starsferil við leikmynda- og búningagerð.

Björn Georg Björnsson
ÓE fór yfir gjafabréf Björns G. Björnssonar en í tilefni af 75 ára afmæli sínu maí og 53 ára starfsferli við hönnun á ýmsum sviðum fyrir sjónvarp, leikhús, söfn og setur víða um landið, afhendir Björn Leikminjasafni Íslands með kærum þökkum fyrir samstarf við undirbúning og stofnun Leikminjasafns Íslands, teikningar, handrit og ljósmyndir í 4 stórum plastkössum ásamt 14 spjöldum með teikningum úr Paradísarheimt.

KH færir djúpar þakkir stjórnar og fulltrúaráðs fyrir þessar rausnarlegu gjafir.  Nú fara þær í vörslu höfuðsafnanna tveggja; Þjóminjasafnið mun geyma ljósmyndir og annað myndefni í myndasafninu í  Vesturvör í Kópavogi, en þar hefur losnað pláss eftir endurskipulagningu og flutning í nýtt varðveisluhús að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði.  

Nokkur umræða skapaðist um safnastefnu og mikilvægi þess að einkasöfn séu geymd á einum stað, en jafnframt minnt á mikilvægi samræmdrar skráningar og stafræna miðlun þeirrar skráningar. Hraðar framfarir eru í öllu því er lítur að rafrænni vistun og miðlun, sem mikilvægt er að hollvinafélagið, sem eftir á að stofna, geri sér far um að fylgjast með, en félagið mun hafa það að meginmarkmiði að veita faglega ráðgjöf varðandi varðveislu og miðlun þessara gagna, af sjónarhóli listgreinanna sjálfra.

Nokkuð er rætt um framtíðina, þ.á.m. þann arf sem safnast hefur saman í stærri leikhúsunum, Þjóðleikhúsi og Borgarleikhúsi, nauðsynlegt að undirbúa samstarf þessara stofnana við  höfuðsöfnin Þjóðminjasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands, enda munu þau þurfa að taka við stórum hluta þessa arfs í náinni framtíð.

Gunnar Bjarnason
Líkön að leikmyndum eftir Gunnar eru í geymslum Leikminjasafns og munu fara með öðrum líkönum í Vesturvör.

ÓE veltir upp spurningu um hvort að hægt sé að nota þær 120.000 kr., sem eru til í sjóðum Leikminjasafns Íslands í hans nafni, til að útbúa sýningarkassa fyrir verk Gunnars.

KH svarar að kannski sé best að skrifa greinargerð um tilvist sjóðsins svo hollvinafélagið og/eða höfuðsöfnin geti metið með hvaða hætti fullnusta megi vilja erfingja Gunnars, sem með gjöf sinni til safnsins óskuðu þess að peningarnir yrðu notaðir til að heiðra minningu Gunnars. Greinargerðin myndi síðan fylgja mununum til viðeigandi safns.

Til að ljúka þessari umræði gefur KH yfirlit yfir stöðu safnkosts Leikminjasafns Íslands; 9 vörubretti af bókum, handritum og einskasöfnum, fóru úr geymslunum á Granda í Þjóðarbókhlöðuna, hinar konunglegu mublurnar fóru í Þjóðleikhúsið, sömuleiðis málverk af Önnu Borg og Paul Reumert, og eru þessir gripir nú á Kristalsal Þjóðleikhússins.  

Skúlptúrar eftir Jón E. Guðmundsson fóru til Safnasafnsins við Eyjafjörð. Þar var þeim gert hátt undir höfði á sumarsýningu safnsins á síðasta ári. Málverkum JEG, sem eru 5 eða 6 talsins, þarf ennþá að koma fyrir og eru uppi hugmyndir um að stofna listasafn á Patreksfirði, fæðingarbæ Jóns.  ÓE er í sambandi við einstaklinga þar í bæ, sem hafa hug á að taka verkin til varðveislu.

120 teikningar/vatnslitamyndir eftir JEG verða boðnar skólasafni Austurbæjarskóla en þar kenndi Jón teikningu mestan sinn starfsferil.

Þann 29. maí fara svo KH og ÓE ásamt Jóni Viðari Jónssyni (fv. forstöðumanni Leikminjasafnsins) og Lilju Árnadóttur (sviðsstjóra munasviðs í Þjóðminjasafni) í geymslur Leikminjasafns Íslands til að koma því sem þar er eftir í Þjóðminjasafn og aðra staði sem nefndir hafa verið sem vörsluaðilar safnkostsins.

Stefnt er að því að tæma geymslur Leikminjasafns Íslands fyrir 7. júní.

Varðandi áformin um að ráða sérfræðing í sviðslistum til starfa í Landsbókasafni, þá mun fráfarandi formaður KH fylgja því eftir við landsbókavörð að ráðið verði í starfið með haustinu og að í auglýsingu um starfið verði áhersla lögð á sérmenntun í sviðslistum, en ekki í bókasafns- og upplýsingafærði.

Fráfarandi formaður stjórnar mun semja og senda tilkynningu um niðurstöðu þessa fundar og framtíðina til fjölmiðla og á facebókarsíðu Leikminjasafnsins.

KH ber upp tillögu um að stofnað verði vinafélag um sviðslistaarfinn og stofnfundur þess haldinn strax að loknum þessum fundi, en tillaga að stofnsamþykktum fyrir slíkt félag er í fundargögnum.

Tillagan samþykkt samhljóma.

Síðasta fundi Leikminjasafns Íslands formlega slitið af formanni kl. 16:17