Skýrsla stjórnar Leikminjasafns Íslands
starfsárið 2018 fram að aðalfundi 2019

Stjórn Leikminjasafns Íslands var þannig skipuð starfsárið 2018 – 2019: Kolbrún Halldórsdóttir formaður,  Lárus Vilhjálmsson gjaldkeri, Sigríður Jónsdóttir ritari, Árni Kristjánsson, Helga Maureen Gylfadóttir, Benóný Ægisson og Ólafur Engilbertsson meðstjórnendur. Varamenn voru Sesselja G. Magnúsdóttir og Katrín Ingvadóttir, en skv. samþykkt stjórnar eru varamenn boðaðir á alla stjórnarfundi og fá öll gögn vegna stjórnarfunda. Stjórnin kom saman fimm sinnum á starfsárinu, þ.e. frá aðalfundi 2018 til aðalfundar 2019. Fundirnir voru haldnir 15. maí 2018, 5. september 2018, 13. desember 2018, 22. janúar 2019 og 18. mars 2019.  Einn fulltrúaráðsfundur var haldinn á starfsárinu þ. 22. janúar 2019 og er sérstaklega gerð grein fyrir honum í skýrslu þessari. Fundir stjórnar eru færðir til  bókar og eru fundargerðir stjórnarfunda aðgengilegar fulltrúum á aðalafundi. Auk þeirra funda sem hér eru taldir hafa talsverð samskipti verið milli funda með tölvupóstum, auk þess sem einstakir stjórnarmenn hafa unnið að mikilvægum verkefnum á borð við Safnanótt og ársfund NCTD sem haldinn var í Reykjavík 16. – 17. maí 2019.


Þar sem frá var horfið síðasta vor…
Á vissan hátt má segja að 20 ára saga Leikminjasafns Íslands hafi verið reyfara líkust, a.m.k. þegar litið er til allra þeirra átaka og kúvendinga sem orðið hafa í málefnum safnsins frá því að Samtök um leikminjasafn voru stofnuð árið 2001. Þegar skilið var við ársskýrslu Leikminjasafns Íslands 2017 og fram að aðalfundi 2018, hafði verið beðið eftir fundi með mennta- og menningarmálaráðherra um málefni safnsins um nokkurra mánaða skeið og óþol orðið nokkuð hjá stjórn safnsins. En þarna í lok apríl 2018 stóð fyrir dyrum fundur með nýjum mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur. Fundurinn hafði verið boðaður 30. apríl 2018 en aðalfundur safnsins var haldinn fimm dögum fyrr þ. 25. apríl. Málið sem ræða átti varðaði örlög Leikminjasafns Íslands, þ.e. hvort ráðherrann gæti tryggt Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og Þjóðminjasafni Íslands nægilega fjármuni til að áætlanir um yfirtöku þeirra á hlutverki Leikminjasafns Íslands næðu fram að ganga. Það sem um var að ræða var það að þessar stofnanir tækju að sér að safna, varðveita, rannsaka og miðla sviðslistarfi þjóðarinnar til frambúðar.


Tímalínan
Það er ekki úr vegi að rekja tímalínu málsins frá þeim tíma sem síðustu ársskýrslu sleppir. Þá stóð sem sé til að formaður fengi að hitta ráðherra til að ræða það erindi sem sent hafði verið ráðherranum 2. febrúar 2018, þegar ljóst var að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafði brugðist vonum stjórnar safnsins, sem átti  von á stuðningi til þriggja ára til að ljúka verkefninu sem að framan greinir þ.e. 12 m.kr. á ári í þrjú ár, samtals 36 milljónir. Sú upphæð byggði á áætlun sem stjórn hafði unnið í samstarfi við Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur landsbókavörð og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð og var afar knöpp en líklega sanngjörn gagnvart ráðdeildarsömum stjórnvöldum. Niðurstaða ráðuneytisins var hins vegar á allt öðrum nótum. 31. janúar 2018 var okkur tilkynnt að safninu yrði úthlutað 3,7 milljónum króna til að ljúka verkinu (!). Það var að sjálfsögðu óásættanlegt og því hófst sá hluti þessa leiðangurs sem nú er um það bil að ljúka og er tímalína málsins eftirfarandi:


2. feb. 2018 upphaflegt erindi sent ráðherra þar sem kvartað var undan niðurstöðu úthlutunar ráðuneytisins með ósk um fund með ráðherra til að freista þess að fá niðurstöðunni breytt
4. mars höfðu engin viðbrögð borist og var ósk um fund ítrekuð
30. apríl fékk formaður stjórnar Leikminjasafns boð um að koma til fundar við ráðherra 2. maí
2. maí fundur með ráðherra haldinn, formaður stjórnar mætti ásamt fyrrverandi stjórnarformanni Sveini Einarssyni, í lok hans beðið um viðbótarupplýsingar um áætlunina að baki beiðni safnsins og ákveðið að boða fljótlega til nýs fundar
3. maí ráðherra sendar frekari upplýsingar um Leikminjasafnið og áætlunina að baki erindinu
14. maí ráðuneytinu sendur póstur og ítrekuð ósk um fundur verði boðaður um málið
11. júní kom boð um fund með ráðherra sem halda ætti 20. júní
20. júní kom formaður stjórnar ásamt þjóðminjaverði og landsbókaverði en ráðherra var erlendis og hafði láðst að afboða fundinn
29. júní boðaður nýr fundur með ráðherra 2. júlí
2. júlí fundur með ráðherra haldinn, óskað frekari sundurliðunar kostnaðaráætlunar
15. ágúst ráðuneytið sendir ítrekun um að frekari gögn berist ráðuneytinu
21. ágúst brugðist við og gögnin send um hæl
4. september ráðherra send persónuleg skilaboð þar sem niðurstöðu í málinu er óskað
4. september bárust pers. skilab. frá ráðherra um að hún hafi staðið í þeirri meiningu að málið væri frágengið
1. október ráðherra send persónuleg skilaboð með ítrekun um niðurstöðu málsins
13. nóvember hitti formaður ráðherra á fundi um allsendis óskylt mál, en var kölluð á óformlegan fund Auðar B. Árnadóttur skrifstofustjóra fjármálaskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Karístasar Gunnarsdóttur skrifstofustjóra meningarmála þar sem málefni Leikminjasafns voru reifuð, m.a. hugmyndir um að ráðuneytið væri að skoða hvort ekki mætti setja fjármunina sem Leikminjasafnið hefði verið að óska eftir, beint til Landsbókasafns og Þjóðminjasafns. Svar formanns á fundinum var þannig að stjórn Leikminjasafns myndi skoða hverja þá hugmynd sem kæmi frá ráðuneytinu um framlag til verkefnisins með jákvæðum huga, en við þyrftum að fá það í formlegu erindi. Þessi fundur var hvergi færður til bókar en upplýsingar um hann koma fram í tölvupóstum milli aðila.
18. desember kom tölvupóstur frá fjármálaskrifstofu ráðuneytisins þar sem stjórn Leikminjasafns var tilkynnt eftirfarandi:
Staðfesti það sem áður hefur verið upplýst að ráðuneytið mun ekki verða aðli að samkomulagi Leikminjasafns Íslands við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands um að taka við safnkost og eigum Leikminjasafns Íslands. Þú ert því vinsamlega beðið um að snúa þér beint til Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns og Þjóðminjasafns Íslands. Ráðuneytið mun koma að verkefni með styrk til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðminjasafns Íslands.


18. desember sent eftirfarandi svar:


Fyrir hönd stjórnar Leikminjasafns Íslands staðfesti ég móttöku pósts þessa, en kannast ekki við "það sem áður hefur verið upplýst" varðandi niðurstöðu ráðuneytisins um erindi Leikminjasafns Íslands til mennta- og menningarmálaráðherra dags. 2. febrúar 2018.


Á óformlegum fundi okkar tveggja og skrifstofustjóra menningarskrifstofu ráðuneytisins á skrifstofu þinni þann 13. nóvember sl. var mér sagt af hugmyndum um að fjármunir þeir, sem Leikminjasafnið sótti um haustið 2017 til að ljúka verkefninu sem um ræðir, myndu mögulega verða færðir höfuðsöfnunum beint (Þjóðminjasafni Íslands og Landsbókasafni Íslands), með samkomulagi, fremur en að þeir yrðu afhentir Leikminjasafni Íslands. Um slíka afgreiðslu hafði ég jákvæð orð að því gefnu að stjórn og fulltrúaráði Leikminjasafns Íslands yrði gerð grein fyrir því formlega með hvað hætti ráðuneytið sæi fyrir sér útfærslu slíks samkomulags og okkur yrði heimilað að taka afstöðu til þeirra hugmynda. Engar upplýsingar af því tagi hafa borist stjórn og því erfitt fyrir forsvarsmenn safnsins að bregðast við pósti þeim sem barst formanni stjórnar í lok vinnudags í gær, 18. desember.


Rétt er að árétta að verkefni það sem stjórn Leikminjasafns Íslands er umhugað um að ljúka, með stuðningi ráðuneytis menningarmála, snýst um varðveislu, rannsóknir og miðlun þess hluta leikminjaarfs þjóðarinnar sem er safnkostur Leikminjasafns Íslands; handrit, bækur, skjöl og munir auk rafræns gagnagrunns um leiksýningar frá upphafi þekktrar leiklistarsögu Íslendinga.


Meðan ekki berst erindi frá ráðuneytinu til stjórnar og fulltrúaráðs Leikminjasafns Íslands til lúkningar mála sem merkt hafa verið MMR17070072 og MMR17100199, er litið svo á að málefni Leikminjasafns Íslands séu enn óleyst.
Þessi tímalína var send ráðherra í lok árs og spurt hvort ekki væri tímabært að upplýsa stjórn og fulltrúaráð um niðurstöðu þess erindis sem ráðherra var sent 2. febrúar 2018.

Lokahnykkurinn við áramót
Dagarnir sitt hvoru megin við áramótin skiptu svo sköpum í niðurstöðu málsins. Þá tóku landsbókavörður og þjóðminjavörður saman höndum og kröfðust skýrra svara um það hvort söfnunum yrðu veittir fjármunir til að taka við safnkosti Leikminjasafns Íslands og hvort einhver hluti þeirra fjármuna myndu þá tilheyra fjárlagaárinu 2018, ef svo væri þyrfti að upplýsa söfnin um það áður en áramótauppgjöri væri lokið. Með þessu samstillta átaki lauk málinu þannig að þær Ingibjörg og Margrét fengu loks tryggingu fyrir því að söfnunum yrðu greiddar 39,6 milljónir króna af fjárlögum til verkefnisins með tiltekinni skiptingu milli þeirra á árabilinu 2018 – 2021. Að auki fengi Landsbókasafnið sem nemur einu stöðugildi til viðbótar í grunnframlag sit frá og með árinu 2019.


8. janúar 2019 var samkomulagið undirritað
Eins og fram kemur í texta samkomulagsins þá er um þríhliða samkomulag að ræða á milli Landsbókasafnsins, Þjóðminjasafnsins og Leikminjasafns. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er ekki formlegur aðili að samkomulaginu, en þess er getið að það sé gert með vitund og vilja ráðuneytisins, enda fjármagnar ráðuneytið yfirfærslu safnkostsins með tilteknum hætti sem landsbókaverði og þjóðminjaverði hafði verið gerð grein fyrir með formlegum hætti við fjárlagagerð 2019.

Samkomulagið felur í sér að Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands taka við safnkosti og eignum Leikminjasafnsins í samræmi við sín lögbundnu hlutverk. Meðal safnkosts Leikminjasafns, sem getið er um í samkomulaginu, er vefsíðan leikminjasafn.is og  gagnagrunnurinn um leiksýningar á Íslandi sem Landsbókasafn – Háskólabókasafn tryggir að verði þróaður áfram í samvinnu við íslenskar sviðslistastofnanir.


Fjármunirnir sem mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir söfnunum í þessu skyni af fjárheimildum 2018 – 2021 eru 39,6 milljónir sem fer að stærstum hluta til Landsbókasafnsins enda fer megnið af safnkostinum þangað og vinnan við móttöku, skráningu og forvörslu því meiri þar en hjá Þjóðminjasafni. Að auki fær Landsbókasafnið hækkun á rekstrargrunni til frambúðar sem nemur einu stöðugildi sérfræðings í sviðslistum, sem sagt er í samkomulaginu að verði auglýst laust til umsóknar í lok árs 2019, en nú eru uppi hugmyndir um að ráða í stöðuna með haustinu. Rétt er að vekja athygli á því að umsókn stjórnar Leikminjasafns haustið 2017, sem hljóðaði upp á 36 milljónir króna (12 x 3) og var svarað með framlagi að upphæð 3,7 milljónir 31. janúar 2018, hefur nú verið komið í höfn með samkomulagi þessu og heildarframlagi frá hinu opinbera sem nemur 43,3 milljónum króna (3,7 + 39,6) svo stjórn safnsins taldi sig geta vel við unað eftir allan barninginn.


Fulltrúarráðsfundur 22. janúar 2019
Þegar allir aðilar höfðu undirritað samkomulagið hóf stjórn að kynna það fyrir fulltrúaráði Leikminjasafnsins, enda var undir það ritað með fyrirvara um samþykki fulltrúaráðsins. 22. janúar var fulltrúaráðið kallað saman til að fjalla um og afgreiða það fyrir sitt leyti.


Stjórn gerði fulltrúaráði grein fyrir því að í aðdragandanum hafi verið mikilvægt að finna einlægan vilja forstöðumanna safnanna til að taka við því hlutverki að varðveita og rannsaka safnkost Leikminjasafns Íslands og miðla honum eftir bestu getu. Þó verður að segjast að bæði söfnin töldu þá fjármuni sem fengust til verkefnisins eins naumt skammtaða og hægt var, t.a.m. var enginn miðlunarkostnaður eða kostnaður við sýningarhald í áætluninni sem lá til grundvallar og því er ljóst að söfnin munu standa frammi fyrir því vandasama verkefni að forgangsraða fjármunum til starfsemi sinnar með þennan nýja safnkost í farteskinu.
Að lokinni efnislegri umræðu um einstaka þætti samkomulagsins var öllum ljóst að samkomulagið felur það í sér að Leikminjasafn Íslands verður lagt niður í þeirri mynd, sem það er nú og kynnti stjórn ráðinu að tillaga um það yrði útbúin fyrir aðalfund safnsins 2019, en í staðinn stofnuð hollvinasamtök til stuðnings höfuðsöfnunum um málefni tengd sviðslistarfinum og meðferð hans.


Samkomulagið var samþykkt af öllum viðstöddum og nokkrum fulltrúum sem höfðu sent samþykki sitt í tölvupósti, í heildina voru það 19 fulltrúar af 27 sem skipa ráðið, enginn var á móti. Þá bar stjórn upp eftirfarandi tillögu:
Fulltrúaráð Leikminjasafns Íslands felur stjórn Leikminjasafns Íslands að vinna að tillögu fyrir næsta aðalfund safnsins, sem haldin verður í maí 2019, um að leggja niður Leikminjasafn Íslands í núverandi mynd. Þá muni stjórn, með samþykki fulltrúarráðsins, vinna að stofnun hollvinasamtaka Leikminjasafns Íslands og halda stofnfund þeirra samtaka í beinu framhaldi af aðfundinum.


Tillagan var samþykkt samhljóða.

Safnanótt 2019 – Lögin úr leikhúsinu
Benóný Ægisson tók að sér að skipuleggja þátttöku Leikminjasafnsins í Safnanótt þetta árið og útbjó hann glæsilega dagskrá, sem flutt  var í Iðnó að kvöldi 2. febrúar 2019, sem  byggð var upp í kringum sönglög í íslenskum leikritum. Bæði var um lifandi tónlistarflutning að ræða en einnig var leikin hljóðrituð tónlist og nokkrir reynsluboltar úr söngleikjahefð okkar kallaðir til að leggja orð í belg.


Stofnað var sérstakt „Leikhústríó“ af tilefninu þar sem þau: Pálmi Sigurhjartarson – píanó og söngur,
Unnur Birna Björnsdóttir – söngur og fiðla og Þór Breiðfjörð – söngur, fluttu syrpu fjölbreyttra sönglaga úr íslenskum söngleikjum og revíum. Síðan spjallaði Benóný við þau : Jón Ólafsson, söngvaskáld, tónlistarmann og tónlistarstjóra,  Kolbrúnu Halldórsdóttur leikstjóra, Ólaf Hauk Símonarson leik- og söngvaskáld og Unu Margréti Jónsdóttur dagskrárgerðarmann, um afmarkaða þætti söngleikjahefðarinnar í íslensku leikhúsi. Aðsókn að dagskránni var mjög góð og voru um 100 manns í húsinu þegar flest var, en dagskráin stóð frá 19.00 – 23.00 og líklegt að á fjórða hundrað manns hafi kíkt í heimsókn. Það er mat stjórnar Leikminjasafns Íslands að þátttaka í Safnanótt sé ákjósanlegur vettvangur til að vekja athygli á safnastarfi í tengslum við sviðslistaarfinn og hvetur til þess að slíkri þátttöku verði framhaldið af þeim aðilum sem nú taka við hlutverki safnsins.


Skráning 2019
Til að halda í hefðina skal hér í lokin getið um skráningu safnkosts Leikminjasafns Íslands hjá Landsbókasafni Íslands, en í ársskýrslum síðustu ára hefur verið gerð grein fyrir stöðu þess verkefnis, sem Leikminjasafn Íslands hefur greitt fyrir að hluta en framkvæmt hefur verið af sérfræðingum á vegum Landsbókasafns. Í lok janúar 2019 hóf Marín Árnadóttir störf á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni við skráningu, flokkun og frágang á safnkosti Leikminjasafns. Síðan þá hefur verið byrjað að skár safn Guðbjargar Þorbjarnardóttur sem telur nú 6 öskjur og má búast við að meira efni eigi eftir að bætast við. Haldið var áfram með skráningu á safni Brynjólfs Jóhannessonar og hafa bæst við 18 öskjur frá því sem lokið var í tíð Margrétar Gunnarsdóttur.  Safnið telur því nú samtals 37 öskjur og má búast við viðbótum. Einnig hefur verið gengið frá viðbótarefni í safn Haraldar Björnssonar í 3 öskjur og telur safnið nú samtals 142 öskjur. Nýlega hefur jafnframt verið byrjað á að fara í gegnum efni frá annars vegar Auróru Halldórsdóttur og hins vegar Helga Skúlasyni og Helgu Bachmann. Marín hefur, ásamt Halldóru Kristinsdóttur, komið fram á fundum um sviðslistaarfinn á þessu ári og gert grein fyrir aðferðafræðinni sem unnið er eftir, m.a. á ráðstefnu í tengslum við ársfund NCTD, sem haldin var í Þjóðarbókhlöðunni 16. maí sl.


Ársfundur NCTD – Nordisk Center for Teaterdokumentasjon
Leikminjasafn Íslands skipulagði ársfund NCTD - Nordisk Center for Teaterdokumentation í Reykjavík dagana 16. - 17. maí. Í tengslum við hann var haldið málþing um söfnun handrita og rafræna gagnagrunna á vettvangi sviðslista, auk þess sem sérstök grein var gerði fyrir stöðunni á Íslandi og saga Leikminjasafns Íslands rakin. Málþingið fór fram í fundasal Þjóðarbókhlöðunnar, ársfundurinn sjálfur í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og í Iðnó var fundað um „Bláu bókina“. Þá fór hópurinn, sem taldi 8 norræna gesti og 4 stjórnarmenn frá Leikminjasafninu, í heimsókn í Safnahúsið og fékk leiðsögn um sýninguna Sjónarhorn og fór svo í leikhús í lokin og sá Ellý í Borgarleikhúsinu. Allt fór þetta hið besta fram og gestirnir okkar báðu fyrir góðar kveðjur til aðalfundarins með þakklæti fyrir móttökurnar.


Lokaorð
Við stöndum á tímamótum nú þegar Leikminjasafn Íslands er við það að ganga inn í  tvö af höfuðsöfnum þjóðarinnar Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Þjóðminjasafn Íslands. Þetta er kannski ekki sú staða sem menn lögðu upp með fyrir tæpum 19 árum þegar stofnuð voru samtök um Leikminjasafn Íslands, en þetta er niðurstaðan af því starfi sem unnið hefur verið af tugum dugmikilla fagmanna um söfnun, varðveislu, rannsóknir og miðlun hins íslenska sviðslistaarfs. Og það er varla á nokkurn hallað þó nefndir séu til sögunnar tveir af mikilvirkustu forsvarsmönnum safnsins þeir Jón Viðar Jónsson, sem um árabil starfaði sem forstöðumaður safnsins og Sveinn Einarsson fv. stjórnarformaður. En það er eitt nafn sem ekki hefur mikið verið haldið á lofti í þessari sögu, sem tilhlýðilegt er að nefna hér og það er Eyjólfur Kristjánsson tölvunarfræðingur, sem hefur hannað og haldið á lífi grunninum um leiksýningar á Íslandi og mun ekki sleppa af honum hendinni fyrr en sérfræðingar Landsbókasafnsins hafa hlotið fræðslu um uppbyggingu hans og geta annast hann um langa framtíð. Mikilvægasta verkefnið sem stjórn og fulltrúaráð Leikminjasafns hafa staðir frammi fyrir á síðustu árum er móta þá hugmyndafræði sem starfa þarf eftir í framtíðinni. Afrakstur þeirrar vinnu verður nú afhentur starfsfólki höfuðsafnanna tveggja sem taka við hlutverki Leikminjasafns Íslands og haldið verður lifandi af vinafélagi um sviðslistaarfinn. Ef til vill fær nafn Leikminjasafns Íslands að lifa áfram í þessum nýju heimkynnum sínum, en hvernig sem það verður þá er ljóst að verkefni þess safns sem tekur nú við keflinu er að vera brautryðjandi sem nýstárlegt safn á vettvangi sviðslista með yfirgripsmikla  þekkingu og kunnáttu til að varðveita, rannsaka og miðla sögu sviðslista á Íslandi um ókomna framtíð. Því starfi fylgja góðar óskir frá þeim sem nú skila af sér.

F.h. stjórnar Leikminjasafns Íslands
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður